Fallegur morgunn

Í nótt geysaði stormur í dalnum, vatnið skrúfaðist upp í stróka eða lagðist niður í hvítfrissandi teppi þess á milli. Það tók í hús og hríslur og dundi í fjöllum en hugur minn var stilltur, yndislega kyrr, að standa í nóttinni og fylgjast með þessum hamförum var frábært. þetta fær maður stundum að upplifa eftir gott swett, hugleiðslu og samneyti með góðu fólki þegar hugur og hjarta manna flæða í sama farveg.

Það er mín reynsla með öðrum að það eru talsverð tíðindi í lífi fólks þegar því er að takast að kyrra hugann smám saman með markvissri iðkun því það fylgir svo margt á eftir, ég get satt að segja ekki óskað neinum betra ástands en að fá að kyrra huga sinn og upplifa stillu.

Enn er kyrrt, vindurinn dottinn að mestu en stöku hviður, þá ýlir í hurðagáttum annars bara þögn, suð í ískápnum og stöku brestir í húsinu en dýrin smáu hafa hringað sig saman á gólfinu og sofa. Sólstafir falla af og til niður á vatnið úr þröngri stöðu frá himinngrámanum, þetta er fallegur morgunn.

ást og friður.